145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:35]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru lagðar til 400 millj. kr. í framhaldsskólana til að styrkja rekstur þeirra og gera þeim meðal annars kleift að opna aftur fyrir fullorðnu fólki, 25 ára og eldra, inn í framhaldsskólana sem ríkisstjórnin hafði með fjárveitingavaldi vísað út úr skólunum, 700 manna hópi. Þetta er hópur sem ýmist hefur flosnað upp úr námi eða ekki átt þess kost af ýmsum ástæðum að sækja nám í framhaldsskóla en hefur hins vegar getað leitað þangað í gegnum þá þjónustu sem þar er og tekið stúdentspróf í heimabyggð. Þetta á sérstaklega við um konur sem eru bundnar yfir börnum úti á landsbyggðinni.

Vinnumarkaðurinn og samfélagið þarf á menntuðu fólki að halda. Það er mikilvægt að gefa þessum hópi tækifæri til að (Forseti hringir.) komast aftur inn í skólakerfið í stað þess að vísa honum þaðan út með þeirri mismunun sem því (Forseti hringir.) fylgir, á forsendum búsetu og aðstæðna.