145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu um aukin framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytis um 170 millj. kr. vegna verkefnis um stafræna íslensku. Það er umfjöllunarefni sem við höfum rætt hér í þinginu nánast alveg frá kosningum. Hér hefur orðið til þverpólitískur skilningur á mikilvægi þessa verkefnis vegna stöðu íslenskrar tungu og vegna þess hversu mikið er að henni sótt í flóru tungumála heimsins. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að standa saman að því að verjast þeirri stöðu. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra talaði um það í sérstakri umræðu að hann vildi tryggja stöðu íslenskunnar að því er næmi 200 milljónum á ári. Ríkisstjórnin leggur til 30 milljónir í þetta verkefni. Hér leggjum við til 170 að auki og vonumst auðvitað til þess að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra standi með okkur í þessu eins og öðrum góðum tillögum í málaflokki hans sem við leggjum hér fram. Hæstv. fjármála- (Forseti hringir.) og efnahagsráðherra talaði raunar fyrir þessu verkefni (Forseti hringir.) á landsfundi Sjálfstæðisflokksins líka og fór mikinn.