145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Hér erum við að tala um verkferlið. Sveitarstjórnarfólk, hvar í flokki sem það stendur, hefur komið á fund fjárlaganefndar ár eftir ár frá því að ríkisstjórnin tók við og spurt: Af hverju eru ekki settir meiri fjármunir í þetta? Nei, þá komum við enn og aftur að geðþóttaákvörðunum meiri hluta fjárlaganefndar sem setur fjármuni í tiltekin verkefni eftir eigin höfði en ekki til þess að styrkja þær áætlanir sem landshlutarnir hafa sjálfir komið að og með dreifðu og gagnsæju ferli í heimabyggð sinni.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ánægð með að verið er að taka fjármunina úr atvinnuvegaráðuneytinu og setja þá inn í sóknaráætlanir. Ég tel að þeir séu betur geymdir þar og auki líka gagnsæi.

Virðulegi forseti. Ég verð samt sem áður að lýsa vonbrigðum mínum með að hér skuli menn vera að iðka (Forseti hringir.) gamaldags vinnubrögð í staðinn fyrir að nota ferli sem allir sveitarstjórnarfulltrúar (Forseti hringir.) sem komið hafa á fund fjárlaganefndar lýsa ánægju með. (BirgJ: Heyr, heyr.)