145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að leggja til að 65 millj. kr. verði settar í nýja „ekki-stofnun“, þetta er ekki stofnun heldur eitthvað annað. Ég spurði hæstv. ferðamálaráðherra um það hvernig verksvið Ferðamálastofu, Ferðamálaráðs og Íslandsstofu mundi breytast með tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála og hlutverk þeirra stofnana sem til eru og fara að því er virðist með hlutverk sem þessi nýja ekki-stofnun á að sinna. Svarið er að Stjórnstöð ferðamála er samræðuvettvangur stjórnvalda og ferðaþjónustu og með Vegvísi í ferðaþjónustu og tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála er ekki verið að breyta verksviði þeirra stofnana sem að ferðaþjónustu koma, en þó er ekki útilokað að eitthvað muni breytast eftir því sem tíminn líður.

Herra forseti. Ég held að hv. stjórnarþingmenn viti ekkert með hverju þeir eru að greiða atkvæði núna, en þarna eru 65 millj. kr. sem ég held að mætti nota betur í annað.