145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:14]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um fjárveitingu til nýrrar Stjórnstöðvar ferðamála, sem er ekki samræðuvettvangur eins og hv. þingmaður las hér upp, heldur samstarfs- og samræmingarvettvangur eins og fram kom í svarinu. Það er einmitt þannig, ólíkt því sem t.d. hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hélt hér fram, að nú liggur loksins fyrir, og hefði kannski átt að gerast fyrir nokkrum árum, stefnumótun í ferðaþjónustu sem er afrakstur mikillar vinnu míns ráðuneytis og greinarinnar sjálfrar. Með stofnun stjórnstöðvarinnar er kominn vettvangur til þess að leiða þessa mikilvægu atvinnugrein áfram, efla hana og setja þann trausta grunn sem þarf til þess að við getum skipulagt okkur og tekið stjórnina á þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Aðkoma þingsins og þingmanna að þessu hefur verið nákvæmlega með sama hætti og allra annarra áhugasamra um þetta mál. (Forseti hringir.) Við höfum kallað eftir samvinnu og það hafa verið haldnir yfir 50 fundir úti um allt land í þessum (Forseti hringir.) undirbúningi, þar á meðal með þingflokkum hér á Alþingi.