145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:29]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú höfum við farið lið fyrir lið í gegnum öll lögregluembætti landsins og það er raunalegt að sjá alla stjórnarþingmennina greiða atkvæði gegn þeirri tillögu að farið verði í átak gegn kynbundnu ofbeldi, sem er ein lúmskasta og hefur fram til þessa verið ein leyndasta meinsemdin í samfélagi okkar vegna þess hversu dulið vandamálið er og líka vegna þess hversu illa hefur oft og tíðum verið haldið einmitt á þessum málaflokki. Vegna fáliðaðra og jafnvel illa hæfra lögregluembætta hafa mál farið forgörðum í kerfinu og skemmst. Þetta er mannréttindamál og eitt af brýnni málum sem kalla á úrlausn í samfélagi okkar ef við viljum búa hér í mannvænlegu og góðu samfélagi þar sem mannréttindi eru virt og tryggð.