145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn fagna því framlagi sem kemur hér aukalega til lögreglunnar og bendi á að þetta er aukalega við þær 500 milljónir sem voru settar í málaflokkinn í upphafi kjörtímabilsins. Þær 500 milljónir hafa nýst mjög vel og skipt sköpum fyrir mörg lögregluembætti landsins. Farið hefur fram mikil vinna innan ráðuneytisins í kringum þá úthlutun og við gerð löggæsluáætlunar o.fl. Það er hægt að sjá hvernig er hægt að nýta þessa fjármuni sem best og hvar þörfin er mest. Ég bendi á að þetta eru varanlegir fjármunir sem eru að koma hér inn og langt frá því að þetta fari í hallarekstur. Þetta léttir undir með embættunum. Ég vil líka benda á það sem við vorum að samþykkja hér rétt áðan, að færa verkefni til lögreglunnar frá Samgöngustofu til að efla löggæsluna úti um allt landið, gera hana sýnilegri og annað. Það er líka verið að vinna að breyttri menntun lögreglunnar. Það er margt að gerast hjá lögreglunni umfram þessar 400 milljónir sem eru mikilvægar og kærkomnar. Í heildina verður það um milljarður sem kemur aukalega til lögreglunnar á þessu kjörtímabili.