145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum þó nokkur í minni hlutanum sem höfum tekið þátt í vinnu við endurskoðun útlendingalaga, afar góðri þverpólitískri vinnu sem hefur verið studd sérstaklega af hæstv. innanríkisráðherra og fyrrverandi innanríkisráðherra raunar líka; gríðarlega mikilvæg vinna. Það væri sérstaklega við hæfi að fjárlagatillögur, sem snúa að þessum málaflokki, nytu sams konar þverpólitískrar greiningar og skilnings og hefur einkennt þá vinnu. Mér þykir miður að það komi fram hér á atkvæðagreiðslutöflunni að þessi mikilvæga tillaga njóti ekki stuðnings meiri hlutans því að eins og fram kom hér í atkvæðaskýringu hv. þm. Óttars Proppés eru efnislegar ástæður mjög skýrar fyrir því að hér vantar fé.