145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af þessum málaflokki. Ég verð að treysta því að ráðherrar lesi skýrslu Ríkisendurskoðunar eða láti að minnsta kosti aðstoðarmenn sína gera það. Það kom út skýrsla frá Ríkisendurskoðun árið 2013 sem var eftirfylgniskýrsla við skýrslu sem kom út árið 2010 um fangelsismálin. Það er beinlínis sagt að fjármagn verði að fylgja lögbundnum verkefnum. Það er ein ábendingin. Einnig að fangar með geðræn vandamál fái viðeigandi þjónustu.

Síðan eftirfylgniskýrslan kom út hefur frekar hallað undan fæti en hitt. Ég hlýt að velta fyrir mér: Er þessum skýrslum bara stungið undir stól? Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Þetta eru ekki háar upphæðir sem þarf að bæta í en það er óviðunandi að 500 manns bíði þess að afplána. Nú er verið að tala um að loka fangelsum. Hvað er í gangi hérna?