145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst það nú pínu óbilgjarnt þegar talað er um að loka þurfi fangelsum í fleirtölu. Aukafjárveitingar komu inn við 2. umr. fjárlaga fyrir 2016 upp á 45 milljónir. Nú liggja enn óafgreidd í þinginu fjáraukalög fyrir 2015 þar sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði til 20 millj. kr. hækkun til reksturs fangelsanna. Það gerir samtals 65 milljónir sem koma til útgreiðslu nú um áramótin þannig að þarna munar einungis 15 milljónum.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að loka þurfi fangelsum vegna þessa og minni á að það er oft þannig að minni hlutinn beiti þeirri tækni í atkvæðagreiðslu um fjárlög í þinginu að stunda nokkurs konar yfirboð og um það er að ræða í þessari tillögu.

Það er fullur vilji hjá meiri hluta fjárlaganefndar, nú sem endranær, að hafa fangelsismálin svo sómi sé að.