145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef margítrekað í þessari umræðu að það er enginn bragur á því að afgreiða fjárveitingar til samgöngumála í fjárlögum án þess að fyrir liggi samgönguáætlun, án þess að ráðherra hafi lagt fram forgangsröðun sína, án þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi fjallað um málin og hlustað eftir sjónarmiðum.

Hér hefur ekki verið í gildi samgönguáætlun síðan síðasta samgönguáætlun rann út 2012. Um leið og ég styð þessa breytingartillögu um aukið fjármagn til samgöngumála þá finnst mér að því verði að fylgja samgönguáætlun sem fer í gegnum eðlilegt lögbundið ferli og eðlilega þinglega meðferð.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta að tryggja að slík áætlun verði lögð fram á þessu þingi og afgreidd í vor því að þetta er okkur bara til háðungar, herra forseti.