145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:52]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er engin samgönguáætlun í gildi og eiginlega það eina sem verið er að gera í samgöngumálum í dag eru framkvæmdir sem ákveðnar voru af fyrri ríkisstjórn.

Núna liggur vegakerfið víða undir skemmdum og má segja að það sé vanrækt. Þetta er auðvitað alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að fjölgun ferðamanna hefur aukið mjög álagið á vegakerfi landsins. Þetta er því ekki bara spurning um að viðhalda vegakerfinu, þetta er líka mjög mikilvægt umferðaröryggismál.

Þessi tillaga sem gengur út á að bæta 700 millj. kr. til vegaframkvæmda frá þeim tillögum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu er í raun og veru það minnsta sem af verður komist með. Þetta er að sjálfsögðu ekki yfirboð því að allir sem búa úti um landið og í hinum dreifðu byggðum átta sig á ástandi vegakerfisins. Það er í raun og veru farið að liggja undir (Forseti hringir.) skemmdum og orðin hætta á því að það verði miklu dýrara að vera í því stefnuleysi sem ríkir núna í samgöngumálum en að gera samgönguáætlun og fara að vinna markvisst.