145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með endemum að ekki liggi fyrir nein samgönguáætlun og ekkert skipulag sé varðandi það hvernig við ætlum að byggja upp vegina. Fjármagnið hjá ríkisvaldinu er skorið niður við trog. Það hafa litlar breytingar verið á framlögum til þessa málaflokks frá því að þessi ríkisstjórn tók við og það sem er verið að gera í dag eru stórframkvæmdir sem voru ákveðnar á síðasta kjörtímabili.

Hér leggjum við til í minni hlutanum að bæta úr og leggja 700 millj. kr. í viðhald og 700 millj. kr. í nýframkvæmdir.

Það er líka með ólíkindum að Vegagerðin er fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum og núna er það fjármagn sem þó fer til Vegagerðarinnar umfram mörkuðu tekjustofnana gjaldfært á Vegagerðina sem skuld. Á þá bara að safnast upp skuld? Höfum við aldrei tækifæri til að bæta þessar hestaslóðir sem eru hér enn víða um land og voru kallaðar hér í umræðu um fjárlögin (Forseti hringir.) að væru eins og vegatroðningar í Kákasusfjöllum? Það er ekki til fyrirmyndar og þessi ríkisstjórn hefur ekki neinn metnað í samgöngumálum.