145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri aukningu sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu annars vegar til hafnarframkvæmda og hins vegar til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu.

Við kláruðum samgönguáætlun í vor út úr samgöngunefnd og ég er mjög glaður og ég vil þakka hv. fjárlaganefnd fyrir að hafa fylgt þeim tillögum sem komu fram hjá meiri hluta samgöngunefndar í vor en því miður náðist ekki að klára. Ég held að það megi alveg eins [Kliður í þingsal.] líta til stjórnarandstöðunnar eins og meiri hlutans þegar kemur að því hvort það átti að klára málið eða ekki.(Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Við skulum öll leggjast á árar við það að reyna að finna meira fjármagn í samgöngumálin. Ég er einn af þeim sem telja það brýnt og nauðsynlegt og ber þá von í brjósti að það verði gott samkomulag um að við förum í þennan málaflokk á næsta ári.