145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér gleðilegt að ríkisstjórnin og meiri hlutinn sé að setja fjármagn í hafnarframkvæmdir. Hafnir liggja víða undir skemmdum hringinn í kringum landið. En það að einum þingmanni stjórnarliðsins sé falið það verkefni að koma með tillögu að þessu og að fjórðungur þess fjármagns sem um ræðir fari til hafnar í hans eigin byggðarlagi er auðvitað ekki mjög fagleg framkvæmd. Það verður að segjast alveg eins og er og verður auðvitað að gagnrýna það.

Það er engin smáupphæð heldur sem fer í Grindavíkurhöfn, sambærileg upphæð og minni hlutinn lagði til áðan að yrði sett til að bæta móttöku flóttamanna.