145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggur meiri hlutinn til að bæta við 400 millj. kr. í Hafnabótasjóð, málaflokk sem hefur verið fjársveltur frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Vinnubrögðin við úthlutun úr Hafnabótasjóði og hvernig meiri hluti fjárlaganefndar gerir þetta eru þinginu ekki til sóma. Þetta á auðvitað að vinna faglega, samgönguáætlun á að liggja fyrir og hér eru sáralitlir fjármunir miðað við þá þörf sem er fyrir þetta í landinu í þessum málaflokki.

Svo er það eiginlega brandari dagsins varðandi flugvellina. Í fjárlagafrumvarpinu er fjármagn til flugvalla og viðhalds flugvalla og framkvæmda skorið niður um 500 millj. kr. En breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar eru að koma með 400 millj. kr. og þeir berja sér á brjóst við það. Þeir eru stórir í fjárlaganefnd að leggja til 400 milljónir sem mætir ekki einu sinni þeim niðurskurði sem var í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) Þetta er kómískt.