145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði meðal annars um að auka fjármuni til fjarskiptasjóðs sem er mjög mikilvægt og hefur verið mikið kallað eftir í heimsóknum til hv. fjárlaganefndar í haust.

Við erum því miður enn þá á þeim stað að við erum að brjótast með framkvæmdir til þess að tengja ótengd byggðarlög en með þeim breytingum sem við gerum núna munum við mögulega geta unnið enn stærri sigra í því. Ég minni á að vegna þeirrar stefnubreytingar sem gerð var af núverandi ríkisstjórn við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra er í dag verið að auglýsa útboð á seinni hluta hringtengingar Vestfjarða. Við erum því að þoka þessu mikilvæga máli áfram og miðað við umræðuna sem hefur farið fram í þingsal um það mál mundi ég nú ætla að allir yrðu á græna takkanum þegar við komum að því að samþykkja þessa breytingartillögu.