145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er rétt að þetta er góð viðbót við það sem var í frumvarpinu og er nauðsynlegt. En ég hef kallað eftir því að við sjáum eitthvað lengra inn í framtíðina. Þetta verður búið, hvað, tvö þúsund og eitthvað, ég veit það ekki. Þetta er 10–15 ára plan miðað við þær fjárveitingar sem settar eru í þetta núna og settar voru í þetta á þessu ári.

Við þurfum að sjá það líka fyrir okkur hversu lengi við ætlum að vera að þessu. Það er afar mikilvægt. Öll sveitarfélög hafa sett þetta á oddinn. Þetta er forsenda fyrir byggð, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, bæði að fyrirtæki geti vaxið og dafnað og eins að hægt sé að stunda nám og annað því um líkt.

Ég tek undir það að þetta eru góð fyrstu skref og mikilvæg en þau duga ekki til. Ég mundi hafa viljað sjá til framtíðar eða að minnsta kosti næstu ára hvernig við ætluðum að gera þetta en ekki að þurfa að horfa miðað við fjárveitingar núna að það taki 20 ár ef það er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera. En um það vitum við ekki, virðulegi forseti.