145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talar.

Sú sem hér stendur, ásamt fleirum, flutti tillögu um það sem hér liggur fyrir, að lokið yrði að háhraðatengja á fjórum árum, gerð áætlun og lokið á fjórum árum. Þetta er gífurlegt byggðamál og það þýðir ekkert að vera að slugsa í þessu næstu áratugi.

Ég þakka fyrir það að fá þessar 200 milljónir sem hér liggja fyrir til viðbótar við 300 milljónir. En þetta er einskiptisgreiðsla og þarf að slást um það á hverju fjárhagsári að fá peninga í þetta. (Gripið fram í.)

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnrýndi að ekki væri einhver áætlun sem lægi fyrir og þetta tæki einhverja áratugi. Núna hafa menn bætt við 200 milljónum, en við vitum ekkert hvað verður á næsta ári. Menn eiga bara að sýna miklu meiri metnað en þetta og skila þeim 3.500 heimilum í landinu því að ljúka þessu að fullu. Áætlaður kostnaður er 6,3 milljarðar og það verður að bjóða öllum landsmönnum upp á (Forseti hringir.) fullkomnar háhraðatengingar um allt land utan markaðssvæða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)