145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Að sjálfsögðu eigum við að greiða ellilífeyrisþegum og öryrkjum laun sem eru sambærileg lægstu launum, en þau eru þó líka of lág. Ef við hugsum um framfærslu fólks vitum við auðvitað við hvað er að etja og þarf ekki að færa sterk rök fyrir því að þetta sé réttmætt. Og þegar því er haldið fram að við hér, minni hlutinn á þingi, séum með einhverja sérstaka útreikninga er lítið gefið fyrir útreikninga Öryrkjabandalagsins og eldri borgara líka. Þingmenn skulu hafa það hugfast að þetta eru ekki tölur búnar til í kollinum á okkur.

Því miður er fram undan erfiður tími hjá allt of mörgum sem við getum samt leyst að einhverju leyti, þó ekki alveg. Og þegar látið hefur verið að því liggja í umræðunni að hluti af þessum hópi geti bara farið út að vinna til að bæta tekjur sínar þykir mér það afskaplega mikil lítilsvirðing við það fólk. Ég get eiginlega ekki annað sagt. Þau orð hafa fallið hér í ræðustól Alþingis (Forseti hringir.) af hálfu sumra stjórnarliða og það er ömurlegt til þess að vita að fólk skuli leyfa (Forseti hringir.) sér að tala þannig. Að sjálfsögðu segi ég já.