145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að hækka bætur og við munum halda áfram að hækka bætur. Við munum nýta það svigrúm sem verður til í ríkisfjármálunum til að bæta hag þeirra sem minnst hafa. Við höfum talað um að við munum nýta svigrúmið til að bæta hag hvers einasta heimilis á Íslandi. Það sést ekki hvað síst í frumvarpinu að við stefnum að því með þeim breytingum sem við höfum þegar farið í á almannatryggingakerfinu, og útgjaldaaukningin er um 27 milljarðar kr.

Ég veit það líka að stjórnarandstaðan hefur haft sömu forgangsröðun. Ég tel þá áherslu vera svo þakkarverða hjá hverjum einasta þingmanni að við viljum gera betur þegar kemur að þeim sem treysta á bætur almannatrygginga. En ég held að það sé líka mikilvægt að hafa það í huga núna þegar við horfum til þess hvernig við munum standa að breytingum á almannatryggingakerfinu, hvernig við munum standa að frekari hækkunum. Rúmlega 60 þús. manns fá bætur og aðstæður þeirra eru mjög misjafnar. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að við hugum að því og að við sjáum hvernig við getum stutt við þá sem hafa raunverulega allra minnst á milli handanna í almannatryggingakerfinu. Það mun skýrast á næstunni. En áherslan kemur hér fram; bætur fylgja lágmarkslaunum frá og með 1. janúar 2016. Ég segi nei.