145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra þarf ekki að segja okkur þingmönnum Bjartrar framtíðar neitt um nauðsyn verðmætasköpunar sem undirstöðu batnandi lífskjara. Við ásamt mörgum öðrum þingmönnum vorum í samhljómi við þingheim í atkvæðagreiðslu og komum hér í gegn á síðasta kjörtímabili metnaðarfullri áætlun um fjárfestingu í arðbærum verkefnum sem hæstv. ráðherra gerði eitt af sínum fyrstu verkum að blása af, sem ég skil ekki alveg, þannig að við skiljum alveg þörfina. Sá peningur sem átti að fara í það rann að stórum hluta til umyrðalaust og gagnrýnislaust til svonefndrar skuldaniðurfellingar. Talandi um hana, við kjósum um áherslur í pólitík, við ræðum áherslur og hér erum við að tala um að láta kjör þeirra sem hafa það verst í samfélaginu batna í samræmi við það hvernig kjör almennings hafa batnað á almennum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin sturtaði fjármunum á sínum upphafsdögum (Forseti hringir.) til fólks í samfélaginu sem á stórar eignir og fullt af peningum, en hún vill ekki (Forseti hringir.) gera þetta.

Ég hefði aldrei ráðist í skuldaniðurfellingu án þess alla vega að grípa til aðgerða til að útrýma (Forseti hringir.) fátækt í þjóðfélaginu áður, svo ekki sé meira sagt.