145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ótrúlega leið yfir því að hafa tekið þátt í því á síðasta kjörtímabili að taka sársaukafullar ákvarðanir til að reyna að koma ríkissjóði á núllið og horfa síðan upp á þessa ríkisstjórn forgangsraða fyrst til þeirra sem eiga peninga og skilja síðan þá sem lítið sem ekkert eiga eftir, eins og í þessu tilfelli.

Ég er ótrúlega leið yfir því líka að ráðherra málaflokksins skuli koma hingað upp og halda því fram að um áramótin verði þessir aðilar jafn settir þeim sem hafa lægst laun í landinu þegar sannleikurinn er sá að strax í maí munu lægstu laun hækka aftur. Núverandi ríkisstjórn hafnar því að láta kjör lífeyrisþega halda í við launaþróun á vinnumarkaði.

Það er í alvöru talað verið að láta þetta fólk lifa á tæplega 200 þús. kr. á mánuði og borga af öllu sínu. Rétti sá upp hönd eina ferðina enn sem treystir sér til þess. Ég get sannfært ykkur um að enginn treystir sér til þess. Fólk hér inni er að senda (Forseti hringir.) skilaboð um að þessir hópar eigi að halda því áfram. Ég segi já með tillögu til kjarabóta fyrir þessa hópa.