145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði eins og fram hefur komið um það hvort aldraðir og öryrkjar eigi að fá 5,9% hækkun 1. maí sl. eins og allir aðrir launþegar sem hefur verið samið við. Um hvaða upphæð erum við að ræða? Eftir skatt eru þetta 7 þús. kr. Hér á sem sagt að svíkja aldraða og öryrkja um átta mánaða greiðslu, eða 56 þús. kr. á ári.

Ríkisstjórnin hangir á þeirri lagagrein að þetta skuli bara gert við fjárlagagerð. Á þá að setja upp dæmi? Væri best að allir kjarasamningar væru gerðir 2. janúar vegna þess að þá liðu 12 mánuðir óbættir en það mætti alls ekki semja 30. desember vegna þess að tveimur dögum seinna fengju aldraðir og öryrkjar strax sína upphæð, miðað við þessa lágkúrulegu skilgreiningu ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Mér finnst ekki skrýtið að hæstv. forsætisráðherra sé órólegur í sæti (Forseti hringir.) sínu við dæmið sem ég tók. (Gripið fram í.) 7 þús. kr. — nei, aldraðir og öryrkjar, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (Forseti hringir.) segir nei og stjórnarmeirihlutinn fylgir með. Ég segi já.