145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég gef miðstjórn ASÍ orðið:

„Þrátt fyrir að allir kjarasamningar sem ríkið hefur staðið að miði við að hækkun launa verði afturvirk frá og með 1. maí sl. og kjararáð hafi hækkað laun alþingismanna og ráðherra frá og með 1. mars, hafnar ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga með sambærilegum hætti og nemur hækkun lægstu launa og miða við 1. maí. Á sama tíma leggur meiri hluti efnahags- og skattanefndar til breytingar á tekjuskattsfrumvarpi fjármálaráðherra […] sem gæti lækkað tekjuskatt [hjóna] sem eru með meira en 1,4 millj. kr. á mánuði um allt að 900 þús. kr. á ári. Þessi aðgerð er talin kosta ríkissjóð um 3.500 millj. kr. á ári.“

Hæstv. forseti. 3.500 millj. kr. eru einmitt kostnaðurinn við að styðja tillögu okkar í minni hlutanum umfram stjórnartillögurnar. Við höfum efni á þessu. Ég segi já og hafna þar með hróplegu óréttlæti ríkisstjórnarinnar.