145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það hvernig samfélag býr að örorku- og ellilífeyrisþegum er einn stærsti mælikvarðinn á það hvort samfélagið sé velferðarsamfélag. Núna erum við að greiða atkvæði um það hvort öryrkjar og ellilífeyrisþegar eigi að fá kjarabætur sem eru sambærilegar þeim sem orðið hafa á almennum vinnumarkaði. Öryrkjabandalag Íslands, sem er í raun hagsmunasamtök og verkalýðsfélag öryrkja, hefur látið kanna vilja landsmanna í þessum efnum. Þar hefur skýrt komið fram að 95% landsmanna telja að hækka eigi bætur lífeyrisþega til jafns við það sem gerist á almennum vinnumarkaði.

Ég er sammála meiri hluta landsmanna í þessu efni. Þess vegna segi ég já við þessari breytingartillögu.