145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu með þeirri breytingu sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að bætur hækki um 9,7%, eða um 14,2 milljarða 1. janúar 2016. Þarna má bæta við ýmissi útgjaldaaukningu vegna þeirra breytinga, svo sem eins og að setja í forgang að draga úr skerðingu sem bótaþegar máttu sæta í tíð fyrri ríkisstjórnar. Afnumin var sú regla að lífeyrissjóðstekjur skerti grunnlífeyri, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað, frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var hækkað, víxlverkun á samkomulagi vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt og síðan var skerðingarhlutfall tekjutryggingar, sem tók heldur betur í, lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Með þessu öllu þá sjáum við að í frumvarpinu erum við að auka útgjöld til almannatrygginga um tæpa 27 milljarða. Það er veruleg aukning.

Ég vil líka nota tækifærið og segja, vegna þess að við erum (Forseti hringir.) ekki sérstaklega að greiða atkvæði um breytingar hvað húsnæðismál varðar, enda eru engar (Forseti hringir.) breytingartillögur sem snúa (Forseti hringir.) sérstaklega að þeim, að við erum líka að auka verulega í (Forseti hringir.) það sem snýr að húsnæðisstuðningi við þá sem minnst hafa á milli (Forseti hringir.) handanna og það mun að sjálfsögðu hjálpa líka þeim sem fá bætur almannatrygginga.