145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er óþægilegt að heyra formann fjárlaganefndar gera grín að stærstu samtökum launafólks á Íslandi, en við skulum ekki láta það trufla okkur.

Herra forseti. Ég segi já. Við í minni hlutanum leggjum til viðbótarframlag til Landspítala upp á tæplega 3 milljarða til að mæta aukinni þjónustuþörf, fara þarf í nauðsynlegt viðhald vegna þess að húsnæðið liggur undir skemmdum og mæta þarf hækkunum vegna kjarasamninga sem sjúkrahúsinu eru ekki bættar að fullu. Með þessu tökum við undir kröfu stjórnenda sjúkrahússins sem sent hafa út ákall um aukið fé til að geta unnið í samræmi við lög. Við í minni hlutanum viljum tryggja öryggi sjúklinga og vinnuaðstæður starfsfólks og leggjum því þetta til og viljum ekki að trúa því að meiri hlutinn á Alþingi ætli að láta þjóðarsjúkrahúsið (Forseti hringir.) reka á reiðanum.