145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem verið hefur hér fyrst og fremst til umræðu í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Það sem mér finnst eiginlega standa upp úr eftir þá umræðu alla saman er sá lærdómur hversu mikilvægt það er að hlusta á það fólk sem vinnur verkin. Að hlusta og skilja stöðu þeirra sem vinna verkin. Þegar forstjóri Landspítalans talar er hann ekki þrýstihópur sem beitir andlegu ofbeldi. Þá er hann maður sem fer fyrir þjóðarsjúkrahúsinu á Íslandi sem er í raun og veru flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þegar menn leyfa sér að ræða framlag hans inn í umræðuna með slíkum skætingi og slíkum hroka endurspeglar það og undirstrikar á hversu alvarlegum stað við erum í íslenskum stjórnmálum. Hér leggjum við til viðbótartillögur sem eru til að koma til móts við rökstudda og skýra þörf Landspítala – háskólasjúkrahúss til að geta rekið stofnunina með viðunandi hætti (Forseti hringir.) og til að tryggja öryggi sjúklinga og heilbrigðisþjónustunnar í landinu.