145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er dapurlegt að ekki skuli vera lagt meira fé í Landspítalann en raun ber vitni af hálfu meiri hlutans. Hér hefur verið ítarlega rakið að forstjóri spítalans lagði fram ígrundaðar tillögur sem stjórn spítalans taldi að þyrfti til að hægt væri að standa við það sem þeim bæri samkvæmt lögum. Launabæturnar eru upp á 400 milljónir og mér þykir áhugavert að það skuli muna svo miklu á milli útreikninga ráðuneytisins og Landspítalans. Ég skil það ekki og veit reyndar ekki hvort þetta fólk hefur ekki talað saman til að fá niðurstöðu um það, nema ráðuneytið telji bara sína útreikninga það rétta að það taki ekki mark á hinum. Það breytir því ekki að ástandið er ekki viðunandi. Við erum að missa fólk úr landi, sem treystir sér ekki til að vinna á stofnuninni. Þetta á að vera háskólasjúkrahús sem á að taka á móti nemendum sem eru að útskrifast úr læknisfræði, vinna sín kandídatsár, og þeir treysta (Forseti hringir.) sér ekki til að vinna á þessu sjúkrahúsi vegna þess að vinnuaðstaðan er ekki viðunandi. Þetta er óboðlegt, virðulegi forseti.