145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég barist fyrir því að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar, sérstaklega heilbrigðisþjónustunnar, og er ánægður með það sem þessi ríkisstjórnarmeirihluti hefur gert. Það er ekki bara hvað varðar Landspítalann heldur líka hvað varðar heilsugæslu og hjúkrunarþjónustu og við horfum á mjög stór verkefni fram undan.

Ég fagna því að hv. stjórnarandstæðingar hafa á síðasta kjörtímabili vaknað til meðvitundar um mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar. En ég verð að viðurkenna að mér þykir það holur hljómur, þegar við skoðum forgangsröðun í niðurskurði sem varð að fara í á síðasta kjörtímabili. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skáru, bæði hlutfallslega og í fjölda, langmest niður í heilbrigðiskerfinu. Ég fagna því hins vegar ef þetta er komið til að vera.

Þegar menn tala um að 30 millj. kr. séu til að kanna hvað forstjóri Landspítalans segir þá er það fráleitt. Hann og forusta Landspítalans voru alveg sammála um mikilvægi þess að fara og skoða þessi mál, enda væri ábyrgðarleysi að gera það ekki með reglulegu millibili. Þingmaðurinn segir nei.