145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp út af töluliðum 96 og 97 því að þetta er hluti af því samkomulagi sem náðst hefur varðandi yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Þegar málaflokkurinn fór yfir var ekki komin niðurstaða sem sneri að atvinnumálum fatlaðs fólks en nú liggur hins vegar fyrir viljayfirlýsing hvað varðar atvinnumálin. Hugsunin er að Vinnumálastofnun taki við og sinni því hlutverki að halda utan um atvinnumál allra hér í samfélaginu, ófatlaðra sem fatlaðra einstaklinga. Breytingartillagan gengur út á að færa þá fjármuni sem hafa hingað til verið hjá Tryggingastofnun yfir til Vinnumálastofnunar til fjármögnunar á vinnusamningum öryrkja. En það munu líka koma fram tillögur á milli 2. og 3. umr. sem snúa að þessu samkomulagi.

Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mjög gott samstarf og þá miklu vinnu sem hefur farið fram varðandi yfirfærsluna og við munum örugglega fá tækifæri, eins og hefur komið fram, til að ræða það frekar, væntanlega að einhverju leyti við 3. umr., en þetta er sem sagt hluti af því.