145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið og raunar ráðgáta af hverju svona illa er komið fyrir fæðingarorlofskerfinu. Ég hefði haldið að það væri algerlega þverpólitísk samstaða um að byggja upp og hafa gott fæðingarorlofskerfi. Núna er staðan sú að það er að molna undan þessu kerfi. Þakið er of lágt og greiðslurnar eru of lágar þannig að fólk, sérstaklega feður, veigrar sér við að taka fæðingarorlof, ekki fullt fæðingarorlof alla vega, og brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það átti að gera með því að lengja fæðingarorlofið, en horfið var frá því.

Það er skrýtið að geta ekki stigið þau skref vegna þess að fæðingarorlofskerfið er fjármagnað með hlutfalli af tryggingagjaldi og það á að vera mjög auðvelt að mynda samkomulag um það milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins að hafa þetta hlutfall einfaldlega nógu hátt til að fjármagna almennilegt kerfi. En hvað gerði ríkisstjórnin? Eitt af hennar fyrstu verkum var að seilast inn í það, að skera niður lenginguna á fæðingarorlofinu og minnka hlutfall Fæðingarorlofssjóðs af tryggingagjaldinu og taka það og setja í almennan rekstur. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin sótti beinlínis pening inn í þennan sjóð, vó þar með að honum. Það þarf auðvitað að vinda ofan af þessu og byggja upp almennilegan sjóð.