145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að miða við það að barnabætur skerðist ekki fyrr en við 270 þús. kr. á árinu 2016, en 270 þús. kr. eru, eins og ég sagði áðan, lægstu laun frá 1. maí 2016 hjá VR og Flóabandalaginu. Í tillögum stjórnarmeirihlutans er gert ráð fyrir að barnabætur skerðist við 200 þús. kr. mánaðarlaun og er skerðingin mjög grimm eftir það þannig að þeir sem eru með 500 þús. kr. eða meira fá engar barnabætur. Barnabæturnar í þessu formi eru ekki til að jafna stöðu barnafólks. Við leggjum hér til lagfæringar á því, að lyfta skerðingunni upp um 70 þús. kr. þannig að það sé að minnsta kosti þannig að þeir sem eru með lægstu launin á árinu 2016 fái óskertar barnabætur. (VigH: Óskertar miðað við hvað?)