145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef búið víða um heim. Ég man ekki eftir að hafa búið neins staðar nema á Íslandi þar sem eins mikið er hringlað með hluti og hér. Teknar eru einhverjar skyndiákvarðanir til að fá skyndigróða út af aðstæðum sem eru í dag í staðinn fyrir að horfa til framtíðar. Nýbúið er að samþykkja áætlun með Þjóðskjalasafnið og svo er allt í einu ákveðið að staðurinn sé heppilegur fyrir hótel. Ég vil upplýsa meiri hluta þingsins um að það er alveg yfirdrifið nóg af húsnæði sem verið er að byggja sem hótel. Á einhverjum punkti verður það þannig að ekki verður jafn mikil þörf á slíku húsnæði. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að þó svo að Þjóðskjalasafnið sé ekki húsnæðið, eins og réttilega hefur verið bent á, þá er það á góðum stað. Ef ekki er búið að gera áætlanir og fara á að setja það til dæmis í leiguhúsnæði þá er það óhæfuverk. (Forseti hringir.) Ég vona svo sannarlega að ef á að gera þetta svona verði tryggt að safnið fái sitt eigið húsnæði en verði ekki sett í leiguhúsnæði.