145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú einhver misskilningur að menn hafi aldrei rætt Þjóðskjalasafnið og húsnæði þess hér á hv. Alþingi, þetta gamla mjólkurbú. Það hefur verið gert í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þar áður í menntamálaráðuneytinu hvað eftir annað vegna þess að húsið þótti ekki henta og skjöl lágu undir skemmdum. Við vorum núna í vetur að setja nokkur hundruð milljónir í viðgerðir á húsinu. Ég vona að það sé búið en miðað við þær upplýsingar sem ég hef er langt í það. Enda segir sig sjálft að gamalt mjólkurbú hentar kannski ekki mjög vel fyrir þjóðskjalasafn.

Reyndar er það þannig, af því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom hér, að Vinstri græn, eftir því sem ég best veit, í það minnsta Samfylkingin, hafa samþykkt það í Reykjavíkurborg að fara þess á leit að fá þetta svæði. Ég veit ekki af hverju menn tala bara hér um hótel því að margt annað kemur þarna til greina. Sem betur fer er borgin okkar að njóta góðs af því að fleira og fleira fólk heimsækir hana. Menn tala oft um að málefnum Reykjavíkurborgar sé ekki sinnt hér á hv. Alþingi. Ég held að sumar af þeim ræðum sem hér voru hafi borið þess merki. En eins og hæstv. ráðherra sagði, (Forseti hringir.) hér er bara um heimild að ræða. Ég tel hins vegar að menn ættu að skoða þetta í fullri alvöru, bæði út frá hagsmunum þess merka safns sem þar er (Forseti hringir.) og ekki síður út frá borginni okkar, höfuðborginni Reykjavík. Það er held ég allt í lagi endrum og eins að við hugsum aðeins um hana, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)