145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um alvörumál að ræða. Ef stjórnmálaafl leggst gegn sinni eigin tillögu vegna þess að það er komin ný skoðanakönnun þá segir það allt sem segja þarf um það stjórnmálaafl. Ef menn vilja, sem ég vona að allir vilji, sjá til þess að hér verði traust á bak við þessa sölu, þá vinnum við saman að því. Hæstv. ráðherra hefur margoft farið yfir þá hluti sem við þurfum að huga að, þá varnagla sem við þurfum að slá. Það er grundvallaratriði ef við ætlum að taka niður vaxtagreiðslu ríkissjóðs að þá þurfum við að greiða niður skuldir. Besta leiðin til þess er að selja eignir sem þau lönd sem við viljum bera okkur saman við eru ekki með eignarhald á. Menn tala um að þeir vilji hafa hlutina eins og er annars staðar á Norðurlöndum og það er ekki þannig að þau ríki séu í stórtækum bankarekstri. (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þingmenn taki málið alvarlegar en hér hefur komið fram.