145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þriðji þingvetur þessarar ríkisstjórnar er nú hálfnaður og við erum enn þá í þeirri stöðu að heilt húsnæðismálaráðuneyti hefur ekki skilað neinu í húsnæðismálum nema ágætishugarflugsfundi um byggingarreglugerð núna nýverið, öðru ekki og við erum orðin mjög langeyg eftir aðgerðum í húsnæðismálum. Við erum búin að leggja fram þingsályktunartillögu í níu liðum um aðgerðir á sviði húsnæðismála. Ríkisstjórnin er loksins nú að koma með einhver mál og þá viljum við gjarnan flýta fyrir því að þau geti farið í vinnslu í nefndinni.

Það eru örfáir dagar til jóla. Við eigum eftir að ræða bandorminn í 2. umr. og 3. umr., fjárlög og fjáraukalög í 3. umr. og það eru fjölmörg stórmál eftir. Við höfum áhyggjur af því miðað við áherslur þessarar ríkisstjórnar að hún muni skilja húsnæðismálin eftir.