145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt umræðunnar vegna að setja þetta mál í aðeins betra samhengi. Málið var til umfjöllunar í þinginu á síðasta vetri. Það var til umræðu frá áramótum og fram á vor. Það fékk mjög ítarlega yfirferð í utanríkismálanefnd Alþingis og var afgreitt út úr utanríkismálanefnd Alþingis. En vegna hótana (Gripið fram í.) um málþóf var samið um að afgreiðslu þess yrði frestað fram á haustið. Þetta var með allra fyrstu málum sem komu inn í þingið í haust, þá að mínu mati raunar tilbúið til afgreiðslu. En engu að síður fékk það aftur ítarlega umfjöllun í utanríkismálanefnd eftir því sem mér skilst, ég á ekki sæti þar lengur. Síðan var það rætt vikum saman hér í þinginu.

Eftir 2. umr. var stjórnarandstöðunni í nefndinni líka sýnd mikil tillitssemi í sambandi við afgreiðsluna. (Forseti hringir.) En enn eru leiknir tafaleikir í þessu sambandi og stjórnarandstaðan verður bara að gangast við því að hún ætlar með þinglegu ofbeldi að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu þess.