145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að afgreiðsla þessarar dagskrártillögu snúist um að standa við það sem maður lofar. Maður lofar að afgreiða ákveðið mál og þá stendur maður við það.

Húsnæðismálin eru hlutir sem við lofuðum að fara í og við munum standa við það. Við munum standa við samkomulag sem við gerðum við aðila vinnumarkaðarins ólíkt því sem fyrri ríkisstjórnarflokkar gerðu. Við munum líka standa við það sem við lofuðum stjórnarandstöðunni í samningum. Ákveðnum hlutum sem snúa að þessu máli um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands var lofað og við það eiga menn að standa.

Ég vil líka benda á að hér eru þrjú frumvörp sem snúa að húsnæðismálunum. Það tekur ákveðinn tíma fyrir þingmenn jafnvel að lesa í gegnum þau, það væri kannski hægt að nýta tímann til þess í dag á meðan við erum að klára umræðuna um 2. dagskrármálið. En við getum líka tekið ákvörðun um að hraða þeirri umræðu. Ég held að við höfum þegar eytt allt of löngum tíma í þá umræðu og (Forseti hringir.) ekki sé nauðsynlegt að ræða það mál neitt frekar.