145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:55]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa fallið orð sem mér finnst ástæða til þess að gera athugasemd við og þess vegna blanda ég mér í þessa umræðu.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson segir að enginn maður í stjórnarandstöðunni hafi áhuga á Þróunarsamvinnustofnun nema hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég vil leiðrétta það. Ég hef heilmikinn áhuga á málefnum þeirrar stofnunar (Gripið fram í.) enda hef ég tjáð mig um það mál í tveimur ræðum.

En af því að hér er verið að tala um tillitssemina sem verið sé að sýna stjórnarandstöðunni, m.a. í sambandi við þetta mál, þá fannst mér tillitssemi stjórnarflokkanna koma best fram í gær þegar við vorum í sjö klukkutíma atkvæðagreiðslu og í ljós kom að ekki ein einasta tillaga frá stjórnarandstöðunni var samþykkt við 2. umr. Það minnti töluvert á gamla tíma þegar ég var í borgarstjórn Reykjavíkur(Gripið fram í.) þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri (Gripið fram í.) og það var stefna … Hæstv. forseti. Þetta er náttúrulega ekki hægt.(Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti hefur verið að biðja um hljóð í salnum.) [Háreysti í þingsal.]

Fæ ég þrjár sekúndur? Takk fyrir, virðulegi forseti.

Þetta minnti töluvert á þá tíma þegar umtalaður maður, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra var borgarstjóri í Reykjavík og það var stefna þess meiri hluta að samþykkja aldrei tillögur frá minni hlutanum. Nú er þessi pólitík komin inn á hið háa Alþingi sem ekki hefur verið áður. Það er svolítið sorglegur vitnisburður en þó lýsandi um stjórnarhættina hér og andrúmsloftið.