145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þeir sem hafa setið með mér á þingflokksformannafundum þekkja vel þá ítrekuðu kröfu mína ár eftir ár að hér séu allir samningar sem þingflokksformenn gera vandlega útfærðir og undirskrifaðir. Þessi listi … (Gripið fram í.) — Viltu gera svo vel og halda þínu ágæta munni, hv. þm. Jón Gunnarsson. (Forseti hringir.) Ég er að tala. Ég er bara að útskýra mjög einfaldan hlut og ef maður fær ekki að gera það í friði er eitthvað að ykkur, hv. þingmenn.

Ég hef ítrekað óskað eftir því að samningar séu vandlega útfærðir. Maður fær t.d. ekki að bóka hluti á þingflokksformannafundum. Þar er bara óformlegt samráð þannig að það er engin hefð eða helgun fyrir því að samningar séu skriflegir, engin. Það er mjög mikilvægt að við breytum því verklagi og mér finnst mikilvægt fyrir okkur hina þingmennina að við vitum nákvæmlega um hvað er samið þannig að við lendum ekki í svona hnút eins og við erum í núna.