145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef fúslega gengist við því að vera mikill áhugamaður um ÞSSÍ og er glaður ef það er almennt álitið að ég sé fremstur í hópi jafningja, þeirra sem vilja veg stofnunarinnar sem mestan. En ekki getur hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson álasað mér fyrir að fara að sannfæringu minni og beita þeim rétti sem ég hef hér. Hv. þingmaður gerir því skóna að ég muni beita þinglegu ofbeldi til að koma í veg fyrir samþykkt þessarar tillögu. (Gripið fram í.)

Nú er það svo að það eru tveir þingmenn hér sem geta talað þetta mál dautt. Það er ég og formaður utanríkismálanefndar sem mælum hér fyrir álitum, við getum talað í þessu máli fram til áramóta. Ég tel nú ólíklegt að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir geri það og ég hyggst ekki tala til áramóta, kannski til jóla.

Hins vegar hefur umræðan leitt það fram að það er möguleiki á sáttum. Sá möguleiki var ekki til í upphafi. Hann spratt með gildistöku laga, breytinga á Stjórnarráðinu síðastliðið sumar sem gera það að verkum að hægt er að flytja stofnun eins og þessa í heilu lagi inn í ráðuneytið. Það er það sem við erum að leggja til, að hæstv. ráðherra fái allt sitt fram. Það sem við viljum fá fram er að starfsmennirnir (Forseti hringir.) verði undanþegnir flutningsskyldu. (Forseti hringir.) Það er allt og sumt. (Forseti hringir.) Þá gætu allir mín vegna farið heim í kvöld. Ég er ekki að tefja þetta mál.