145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Já, við viljum nefnilega líka ræða húsnæðismálin. Núna er klukkan tíu mínútur yfir ellefu, þingfundur hófst hér klukkan tíu, við erum búin að eyða rúmum klukkutíma í að þræta um hvað eigi að fara hér á dagskrá. Dagskrá þingsins liggur fyrir. Hér eru 12 dagskrárliðir á dagskrá, þar á meðal húsnæðismál. Þróunarsamvinnumálið hefur verið rætt hér í þinginu, eins og fram hefur komið, í fimmtíu klukkustundir og líka á síðasta þingi, kemur aftur inn óbreytt. Ég trúi bara ekki öðru en að flestallir þingmenn sem hafa áhuga á málinu hafi nú þegar sagt það sem þeir þurfa að segja í því máli og sú umræða þurfi ekki að taka langan tíma. Þetta á heldur ekki að snúast um ÞSSÍ. Þetta á að snúast um framlag Íslendinga til þróunarsamvinnuverkefna, hvort sem þau verkefni eru í sérstakri stofnun eða ekki. Við eigum að gera vel. Ég tel að frumvarpið eigi að hljóta að sjálfsögðu góða og vandaða umræðu (Forseti hringir.) en hún þarf ekki að taka marga daga eins og hingað til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)