145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það vill stjórnarandstöðunni til happs að það eru nú fáir sem nenna lengur að fylgjast með tilburðum hennar hér. Flestir eru farnir að huga að jólunum og misstu þar af leiðandi af því þegar stjórnarandstaðan sagði um það bil 200 sinnum ósatt í gærkvöldi og byrjar svo daginn í dag á svikum, margendurteknum og ítrekuðum svikum. (BirgJ: Hvaða svikari er það?) Svo kalla menn bara: Þið hefðuð átt að hafa þetta skriflegt. Og þegar menn eru minntir á að þetta var einmitt skriflegt segja menn: Ja, þið þurfið að sýna okkur samninginn. Samningurinn er hér, virðulegur forseti. Þetta er allt saman undirritað af fulltrúum allra flokka og gæti líklega ekki verið skýrari. Hér eru listuð upp mál með númerum (Forseti hringir.) og merkt við málin haust/vor eftir því hvenær þau eiga að klárast og í sumum tilvikum eru menn enn þá nákvæmari og taka sérstaklega fram í hvaða mánuði menn áttu að klára málin. Það á við um það mál sem er hér til umræðu, Þróunarsamvinnustofnun, sem er merkt sérstaklega september. Já, það er átt við september á árinu 2015, ekki september 2020, eins og einhverjum stjórnarandstæðingi dettur sjálfsagt í hug að halda fram hér síðar.