145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hygg að misskilningurinn um þetta samkomulag sé að einhverju leyti óumflýjanlegur, vissulega heiðarlegur á báða bóga því að það eru margar leiðir til að skilja svo fá orð. Sem dæmi sagði hér hæstv. forsætisráðherra að samið hefði verið um að klára þessi mál á tilteknum tíma, sem er ekki tilfellið. Það er ekki það sem við vorum að tala um í sumar. (Utanrrh.: Þú ert að grínast, er það ekki?)(Gripið fram í.) Ef við ætlum að hugsa í lausnum (Forseti hringir.) þá er ein lausn á þessu og hún er að hafa þetta skriflegt. Það ætti ekki að vera neitt reginhneyksli að hafa það þannig. Samningar eru almennt skriflegir. Skilmálar almennt eru oft mjög ítarlegir þótt það sé enginn ágreiningur milli viðskiptavinar og þess sem veitir þjónustuna. (Gripið fram í.) Það er bara vegna þess að fólk vill hafa hlutina skýra. Af hverju gerum við það ekki, virðulegi forseti? Ég held að það sé vegna þess að þegar menn fara að taka saman svona lista í kjölfar brjálæðisins eins og þess sem var hér í sumar hafi þeir tilhneigingu til að skilja hlutina á sinn eigin hátt, þeir gleyma að ræða til hlítar hver sé sameiginlegur skilningur og í kjölfarið verður til svona vesen. (Forseti hringir.) Það eru til lausnir á þessu og ég hef bent á þær. (Forseti hringir.) Að lokum vil ég nefna eitt í viðbót. Ég tel alveg eðlilegt að við ræðum dagskrána (Forseti hringir.) hér í upphafi dags, fullkomlega eðlilegt og málefnalegt. Ég skil ekki hvers vegna það er svona mikið vesen alltaf með dagskrána.