145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þegar ég sá dagskrá þessa fundar varð ég hissa, hissa á þessari forgangsröðun og að hér væru húsnæðismálin ekki sett í forgang svo þau kæmust til nefndar. En ég hefði kannski ekki átt að verða hissa eftir fjárlagafrumvarpið þar sem eldri borgarar, öryrkjar, barnafjölskyldur og Landspítali eru látin greiða fyrir það að hægt verði að lækka skatta á hátekjufólk.

Þetta er mjög málefnaleg tillaga og algerlega eðlilegt að hún fái jákvæða afgreiðslu hér og að Framsóknarflokkurinn sýni að hann standi í raun með félags- og húsnæðismálaráðherra.

Svo vil ég segja út af látunum í þessum sal að það er náttúrlega erfitt fyrir svona réttláta og glæsilega ríkisstjórn að eiga við svona óbilgjarna stjórnarandstöðu. Kannski er tímabært að setjast aðeins niður og kanna hvort eitthvað sé hægt að ræða það hér hvernig þetta þing ætlar að starfa þangað til við erum búin að ljúka fjárlagamálunum.