145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

Ríkisútvarpið.

[11:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi fór hér fram atkvæðagreiðsla um fjárlög við 2. umr. Hún markaði tímamót í málefnum Ríkisútvarpsins. Annars vegar vegna þess að felld var tillaga stjórnarandstöðunnar um að Ríkisútvarpið nyti áfram óbreytts útvarpsgjalds. Sú aðgerð kom í kjölfar ítrekaðra aðfinnsla og útásetninga af hálfu stjórnarmeirihlutans í garð Ríkisútvarpsins. Þegar ríkjandi stjórnvöld láta fjárveitingar til frjáls fjölmiðils ráðast af afstöðu til fréttaflutnings hans erum við á mjög hættulegri braut sem lýðræðisríki. Þetta er hins vegar sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur í svari við mig áður lýst yfir sérstökum áhuga Framsóknarflokksins á að standa vörð um Ríkisútvarpið. Það er líka vitað að hæstv. menntamálaráðherra gaf stjórn Ríkisútvarpsins, sem var samhljóða í ósk um óbreytt fjármagn til stofnunarinnar, upplýsingar um það í vor að hann mundi beita sér fyrir óbreyttu útvarpsgjaldi og til þess nyti hann tilstyrks hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra.

Nú þegar hæstv. forsætisráðherra hefur staðið hér að afgreiðslu sem í fyrsta lagi gengur gegn lýðræðislegum grundvallarleikreglum og kemur í annan stað þvert á yfirlýsingar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gefið, hann hefur gert sinn eigin menntamálaráðherra að ómerkingi, hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að standa við það sem hann hefur sagt um að Framsóknarflokkurinn vilji styðja við Ríkisútvarpið og tryggja veg þeirrar stofnunar?