145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

upphæð útvarpsgjalds og rekstrarstaða RÚV.

[11:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum sammála um það og ég held reyndar að ágætt samkomulag sé um að Ríkisútvarpið hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, einkum og sér í lagi þegar kemur að menningarlífi þjóðarinnar. Ég hef áður nefnt það í þessum ræðustól að þær áhyggjur sem við höfðum á árum áður vegna áhrifa hins svokallaðra Kanasjónvarps á þróun tungumáls og menningu þjóðarinnar ættu að vera okkur til umhugsunar þar sem það voru hreinir smámunir á við það sem við er að fást nú á tímum. Það er sérstök ástæða til þess að halda vöku sinni hvað varðar tungumál okkar, máltöku barna og íslenskt menningarlíf, ekki út frá þeirri hugsun að við eigum að einangra okkur og loka af heldur einmitt að vera opin, hafa þetta sem fjölbreyttast, opin fyrir sem flestum straumum og stefnum, en gæta vel að því sem er okkar, okkar menningu og okkar sögu. Og Ríkisútvarpið er auðvitað stærsta menningarstofnun þjóðarinnar, þess vegna skiptir máli að það geti sinnt því hlutverki sem lög og reglur kveða á um. Ef við viljum draga verulega úr fjármagninu þá verðum við að gæta þess á sama tíma að þau verkefni sem við felum Ríkisútvarpinu séu í takti þar við.

Ég vil líka taka undir það sem hér hefur verið sagt að núverandi stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendur hafa náð markverðum árangri í hagræðingu í rekstri. Það kemur fram í Eyþórs-skýrslunni svokölluðu að á síðasta ári hefur verið dregið úr rekstrarkostnaði upp undir 5%. Leigt hefur verið út húsnæði sem ekki er notað, lóðinni hefur verið komið í verðmæti, byggingarréttinum, og allt er þetta til hins betra. En það breytir ekki því að þessi fjölmiðill þarf að sjálfsögðu eins og aðrir fjölmiðlar í landinu að standa frammi fyrir breyttu umhverfi. Ég er ekki í hópi þeirra sem segja að Ríkisútvarpið eigi að vera óbreytt um aldur og ævi, það hlýtur að þróast í takti við það sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði.