145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

upphæð útvarpsgjalds og rekstrarstaða RÚV.

[11:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað þarf að setja allar stærðir hér í samhengi. Ríkisútvarpið hefur úr umtalsverðum fjármunum að spila. Þjónustutekjurnar eru einhvers staðar í kringum 3,5 milljarðar, auglýsingatekjur upp á 12,2. Það sem við erum að ræða hér er mismunurinn á milli 17.800 kr. og 16.400 kr., sem þýðir ef ég man rétt lækkun upp á 460 millj. kr. En þá þarf auðvitað að horfa til þess að á undanförnum árum, allt frá 2008 hefur orðið samdráttur í framlagi ríkisins ef við miðum við það ár.

Stofnunin hefur farið í gegnum heilmikla endurskipulagningu og það sem skiptir okkur máli er sú hugsun sem felst í því að við setjum lög þar sem við ætlum þessari stofnun ákveðið hlutverk. Þess vegna hef ég þá skoðun reyndar, og það er þessu máli skylt, að skynsamlegt sé að stefna að því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Ég tel að það sé óheppilegt að auglýsingar verði alltaf stærri og stærri hluti af heildartekjunum. Þess vegna finnst mér við svolítið stefna í öfuga átt. Ég held að (Forseti hringir.) skynsamlegra sé að setja upp áætlun um það hvernig við komumst með Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði vegna þess ef ríkið setur lög um að það eigi að gera eitthvað (Forseti hringir.) þá tel ég að þá eigi að fylgja því fjármagn, en ekki ætla þessum aðila að vera í harðri samkeppni við aðra fjölmiðla um að ná í fjármagn til að uppfylla bókstaf laganna sem við höfum (Forseti hringir.) sjálf sett hér. Mér finnst það ganga gegn því markmiði að hafa fjölbreytta fjölmiðlaflóru.